REYKJAVIK AREA

Safnasafnið

The Icelandic Folk and Outsider Art Museum

INFORMATION

Svalbarðsströnd

601 Akureyri (dreifbýli)

461 4066

safngeymsla@simnet.is

https://www.safnasafnid.is/

 

Við norðanverðan Eyjafjörðinn, til móts við Akureyri, stendur Safnasafnið við þjóðveginn ofan við Svalbarðseyri. Tignarlegur safnvörður, bláklæddur og rúmlega 5 metra hár, tekur á móti gestum og vísar veginn inn á safnið.

Safnasafnið var stofnað árið 1995 af þeim Níelsi Hafstein og Magnhildi Sigurðardóttur og fagnar því 25 ára afmæli á þessu ári. Af því tilefni er á sýningum safnsins þetta árið sýnt fjölbreytt úrval úr safneigninni og skapað létt og leikandi flæði milli sala og hæða. Gróður leikur stórt hlutverk í sýningunum en einnig letur, umhverfismál, huldufólk, barnslegt hugarfar, kjarnar, innsæi og fagurfræði. Kynnt eru verk eftir um 150 þekkta sem óþekkta höfunda til að flagga fjölbreytileika safneignarinnar.

Safnasafninu er heiður af því að vera í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík  sem fagnar 50 ára afmæli og leiða þessi síungu afmælisbörn saman hesta sína. Safnasafnið hefur um árabil verið í góðu samstarfi við Listahátíðina List án landamæra og eru þrjár sýninga sumarsins eru jafnframt á dagskrá hátíðarinnar.

Sýnd eru verk listafólks sem vinnur að list sinni á Sólheimum í Grímsnesi og eru í eigu safnsins en Sólheimar fagna 90 ára afmæli í ár. 200 ár eru síðan að Sölvi Helgason fæddist í Skagafirði og til að minnast þessara 200 ára tímamóta setur Safnasafnið upp sýningu á verkum hans. Magnhildur Sigurðardóttir sýnir kyrtil sem hún saumaði samkvæmt hugmyndum Sigurðar Guðmundssonar málara (1833-1874) sem hann setti fram árið 1870 til að stuðla að endurnýjun íslenska kvenbúningsins og börnin í Álfaborg sýna verk sín í Blómastofu. Tvær stórar samsýningar opna, önnur heitir Í mannsmynd og samanstendur af 50 verkum sem öll tengjast manneskjunni í einhverri birtingarmynd. Hin ber heitið Gróður jarðar og hugarflugs og hefur sýningarstjórinn Níels Hafstein skapað sannkallaðan töfragarð úr verkum fjölda höfunda.

Verið hjartanlega velkomin á Safnasafnið. Safnið er opið alla daga frá klukkan 10 – 17 fram til 13.september.